141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

afnám verðtryggingar.

[13:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tali um möguleikann á því að setja þak, en ég vil hins vegar taka fram að þá er mjög mikilvægt að þak sé sett með almennum lögum en ekki þannig að þeir sem eigi pening geti keypt sig frá verðbólgunni eins og kom fram í skýrslu velferðarráðherra.

Hins vegar hef ég verulegar áhyggjur af tímaplaninu ef hæstv. ráðherra og Samfylkingin ætlar að skila auðu í hagsmunamálum heimilanna á næstu árum vegna þess að ætlunin er að bíða eftir að gengið verði frá samningum við Evrópusambandið og evra tekin upp. Ég vil nefnilega minna á að við höfum þurft að horfast í augu við það á þessu kjörtímabili. Árið 2009 spáði til dæmis hv. þm. Árni Páll Árnason að kosið yrði um aðild að ESB árið 2010 eða í síðasta lagi árið 2011. Nú hefur hæstv. ráðherra sjálfur talað um að kosið verði um aðild árið 2014 eða í síðasta lagi 2015.

Ég vil benda enn á ný á frumvarp okkar (Forseti hringir.) framsóknarmanna. Í því eru tillögur sem ég tel mikilvægt að skoða um það hvernig við getum tekið á efnahagsstjórninni, bætt stöðu (Forseti hringir.) myntarinnar og leyst úr skuldavanda heimilanna.