141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[14:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Skúla Helgasonar að hér er um að ræða mikið jafnréttis- og mannréttindamál og verið er að stíga varlega en stórt skref í áttina að því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga. Við erum búin að fjalla heilmikið um málið í nefndinni bæði í vetur og í fyrravetur og fara ítarlega ofan í alla þætti þess. Ég held að við séum komin að ágætisniðurstöðu hvað varðar þann þátt sem mest var rætt um, sem er skilgreiningin á lífsskoðunarfélagi. Það er auðvitað hægt að teygja hana í ýmsar áttir en ég held að lendingin í því máli í nefndinni hafi verið mjög jákvæð. Ég legg það eindregið til að þingið ljúki málinu á þessu þingi, en vegna óska og orðaskipta um að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. var ákveðið eftir 2. umr. um daginn að málið færi inn á milli umræðna og verður á dagskrá á fundi nefndarinnar á fimmtudag. Þar förum við yfir þessa tvo þætti, annars vegar tekjuleg áhrif frumvarpsins og hins vegar skilgreiningu á lífsskoðunarfélagi.