141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[16:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum í dag stöðu íslenskra heimila eins og oft áður. Hún er stöðugt áhyggjuefni að mínu viti og raunar allra þeirra sem hér hafa talað, að minnsta kosti á þessu kjörtímabili.

Málshefjandi sagði að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði haft alls konar tækifæri í upphafi kjörtímabilsins. Það má til sanns vegar færa, hér var t.d. tækifæri til að taka á 220 milljarða halla ríkissjóðs, það var tækifæri til að ná niður 18% verðbólgu og það var tækifæri til að ná niður 9–10% atvinnuleysi. Ég tala nú ekki um að reyna að koma aftur á hagvexti hér, sem ekki mjög mörg vestræn samfélög hafa gert, samhliða því að ná nokkrum árangri í fyrrgreindum viðfangsefnum.

Það breytir hins vegar ekki því, og það er alveg rétt hjá hv. málshefjanda, að enn þá eru verkefni sem við þurfum að vinna og tilteknir hópar í samfélaginu hafa farið mjög illa út úr hruninu, það er ekki nokkur vafi á því. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem vakið hafa máls á hugmyndum þar um, til að mynda þaki á verðtrygginguna og einhverjum öðrum sértækum aðgerðum fyrir þennan hóp. Það er gleðilegt að heyra að allir forsvarsmenn þeirra flokka sem hér hafa rætt málin í dag virðast vera á því máli að þetta sé næsta verkefni. Má til sanns vegar færa að það er mikið gleðiefni að svo mikil samstaða séu um hvað sé raunverulega mikilvægasta verkefnið hér í þessum sal.