141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

umgengni um nytjastofna sjávar.

488. mál
[17:04]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Lög um umgengni um nytjastofna sjávar eru afar mikilvægur þáttur í löggjöf um fiskveiðar. Með þeim eru sett ákvæði sem ætlað er að verja stefnumörkun um ábyrga nýtingu auðlinda hafsins eins og hún er ákveðin með lögunum um stjórn fiskveiða og öðrum lögum sem þar eiga við. Það eru rík tengsl milli þessara laga eins og sjá má meðal annars af því ákvæði þessa frumvarps að þau eru að mestu leyti óbreytt úr lokaþætti þess frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða sem ekki náði fram að ganga á 140. löggjafarþingi, í fyrravor.

Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til allnokkrar breytingar á reglum um vigtun sjávarafla í framhaldi af miklu endurskoðunarstarfi sem hefur átt sér stað á síðustu árum undir forustu starfsmanna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Þá er lagt til að viðurlögum gegn brotum verði breytt verulega með því að heimila Fiskistofu álagningu stjórnvaldssekta vegna brota gegn lögunum í stað þess að með brot gegn lögunum verði alltaf og alfarið farið samkvæmt almennum reglum sakamálalaga. Með þessu er leitast við að tryggja mun skilvirkari viðbrögð gegn brotum á lögunum en unnt er að tryggja með gildandi lögum. Dæmi eru um líkar heimildir stjórnvalda af öðrum réttarsviðum og þykja þær hafa gefist vel, einkum á sviði samkeppnisréttar og fjármálaréttar eins og nánar er rakið í athugasemdum með frumvarpinu.

Loks eru lagðar til tvær minni háttar breytingar á lögunum. Annars vegar er lagt til að Fiskistofu verði heimilað að taka gjald fyrir sérvinnslu upplýsinga úr gagnagrunni sínum, þ.e. þegar um er að ræða viðamikla þjónustu af því tagi sem pöntuð er af öðrum aðilum, og hins vegar að heimilað verði að setja kröfur um nákvæmni skráningar á afla í afladagbók.

Þetta er meginefni þessa frumvarps. Því fylgir kostnaðarumsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu eins og vera ber en að öðru leyti vísa ég til athugasemda sem fylgja frumvarpinu. Þar er ítarlegar fjallað um efni þess en ég hef gert hér stuttlega grein fyrir.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.