141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kjaramál hjúkrunarfræðinga.

[10:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spyr um hjúkrunarfræðingadeiluna og hefur áhyggjur af henni. Þeim áhyggjum deili ég og undirstrika að við erum að fást við alvarlegt mál sem þarf að leysa. Það er aftur á móti rétt sem hefur komið fram að þarna er fyrst og fremst um að ræða stofnanasamning sem hefur ákveðið hlutverk af því að kjarasamningur er bundinn til ársins 2014.

Ég get upplýst að viðræður hafa verið í gangi síðustu tvo dagana þar sem menn hafa verið að leita að lausnum. Það er fundur aftur í kvöld. Hugmyndirnar sem unnið er út frá byggjast á því jafnlaunaátaki sem kynnt var í ríkisstjórn á þriðjudaginn þar sem búið er að vinna úttekt á stöðu heilbrigðisstétta og raunar annarra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta samanborið við aðrar stéttir. Þá kemur í ljós, sem menn máttu vita, því miður, að kvennastörfin eru verr launuð. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera átak til að jafna þennan launamun eða stíga þar stór skref. Hjúkrunarfræðingamálið verður vonandi fyrsta skrefið í þeim aðgerðum.

Það er kominn aðgerðahópur sem aðilar vinnumarkaðarins eiga aðild að. Það er verið að ráða starfsmenn í fjármálaráðuneytið og þar er ætlunin að taka nánast með valdi á þessu vandamáli. Það er okkur til vansa að það skuli ítrekað og alltaf sýna sig að hér er kynbundinn launamunur sem er fullkomlega óþolandi og óafsakanlegur. Það kemur fram í þeim úttektum sem þegar hafa verið gerðar að heilbrigðisstéttirnar eru á eftir, eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Þess vegna liggur fyrir að einhverju verður spilað út til að jafna þessa stöðu. Það er þegar komið inn í viðræðurnar á sjúkrahúsinu hvaða lausnir (Forseti hringir.) eru þar mögulegar þó að engar endanlegar tölur hafi verið nefndar í því samhengi.