141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

skattafsláttur vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.

105. mál
[14:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við höldum áfram með skattamál og hér er eitt mjög athyglisvert mál á dagskrá sem felst í því að menn geti dregið frá kostnað við að afla tekna. Þetta er mjög víða mikið tíðkað. Ég þekkti það í Þýskalandi og kostnaðurinn var mjög skrautlegur. Menn gátu meira að segja dregið frá batterí í heyrnartæki — af þeim hluta sem þeir notuðu það í vinnutímanum. Ég hef oft nefnt það en þetta gerir það að verkum að skattalögin verða mjög flókin og eingöngu þeir sem hafa góða endurskoðendur nýta skattalögin að fullu. Hinir sem eru félagslega veikari og ekki eins ríkir njóta ekki allra þeirra gæða sem skattalögunum er ætlað að veita þeim. Þetta er ókostur við það að flækja skattkerfið og gera það réttlátara. En það er margt fleira en ferðir í bíl.

Ég vil minna á að eitthvað af læknum starfa í Skandinavíu og þeir fljúga þá á milli. Ekki veit ég hvernig farið er með kostnaðinn. Sennilega borga sjúkrahúsin farmiðann, ég geri ráð fyrir því. Með nákvæmlega sömu rökum ættu þeir að geta dregið farmiðann frá skatti.

Mjög margir vinna heima hjá sér og það í vaxandi mæli, eru í hlutastörfum og mæta kannski öðru hverju í vinnuna á fundi og slíkt. Þá er það spurning um aðstöðuna heima hjá fólki, hvort menn eigi að geta dregið hana frá skatti, leigu fyrir herbergi, ræstingu, hita, rafmagn o.s.frv. Það getur nefnilega vaxið út í hið endalausa.

Hvenær kemur svona umræða upp? Það er þegar skattprósentan er orðin svo há að það er farið að hamla fólki í því að sækja vinnu. Þegar skattprósentan er farin að drepa niður viljann til að vinna þarf að taka upp svona reglur og lækka byrðina. Þegar skattarnir voru lækkaðir á tekjur einstaklinga, minnkuðu kröfur um svona undantekningar mikið en núna þegar skattheimtan er orðin svona mikil vaxa kröfurnar og þannig byrjar skattkerfið að hola sjálft sig að innan. Ég tala nú ekki um fjármagnstekjuskattinn sem var tvöfaldaður og hann er með þeim órökréttustu sköttum sem til er enda var hann settur þannig á, til að vera órökréttur en lágur, 10%. Menn geta ekki dregið frá vaxtagjöld og tap á hlutabréfum, menn geta ekki dregið frá alls konar gjöld og tap og mínus vaxtatekjur og fjármagnstekjur sem þeir hafa. Núna þegar skatturinn er orðinn svona hár eiga menn að sjálfsögðu að geta dregið frá allt tap sem þeir verða fyrir af fjármagnstekjum, kostnað vegna leigu, tap á leiguhúsnæði, tap af sölu fasteigna, hlutabréfa og slíku, það ætti allt að vera frádráttarbært með nákvæmlega sama hætti og hér. Svo ætti náttúrlega verðbótaþáttur vaxta líka að vera frádráttarbær. Í rauninni yrðu bara raunvextir skattaðir og þá mætti mín vegna skatta þá með sömu skattprósentu og tekjur en ég er ansi hræddur um að ríkið mundi ekki hafa neinar tekjur af því vegna þess að stærsti hluti fjármagnstekna er neikvæður, raunvextirnir.

Hér kemur tillaga til þingsályktunar sem væntanlega fer til hv. efnahags- og viðskiptanefndar þar sem ég sit. Hana verður skemmtilegt að ræða og fá umsagnir um hvernig mönnum líst á þegar skattprósentan er orðin svona há að alls konar frádrættir vegna kostnaðar við að afla vinnu, t.d. fatnaður, jakkaföt jafnvel en menn þurfa að vera sæmilega klæddir í vinnunni o.s.frv., fara að koma fram. Menn ættu þá að geta dregið þetta frá skatti af því að þeir þurfa það til að afla teknanna. Umræðan verður mjög athyglisverð og það verða fengnar umsagnir um þetta. Spurningin er hvort það sé ekki miklu betra að lækka skattana þannig að menn hætti þessu.