141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:11]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að byrja á að óska þingi og þjóð til hamingju. Ég veit að við erum öll glöð og við eigum öll að gleðjast yfir þessari niðurstöðu. Þetta verður síðasta ræðan mín um Icesave, ég lofa því, en þetta er alls ekki sú fyrsta.

Löngum stundum höfum við karpað um þetta mál í þessum sal, keypt okkur tíma til að skoða málið betur, keypt okkur tíma til að safna undirskriftum, keypt okkur tíma til að ræða málið í fjölmiðlum og meðal þjóðarinnar og þannig hafðist þetta. Við unnum en við verðum að venja okkur við þá tilhugsun að halda hér eftir jól án Icesave. Þetta var fyrst og fremst sigur lýðræðisins, þetta var sigur fólksins, sigur beins lýðræðis. Þetta kennir okkur að við eigum að treysta fólki. Þjóðinni er alveg treystandi til að taka flóknar ákvarðanir, setja sig inn í flókin og erfið mál. Þetta var sigur samstöðunnar. Ég vil þakka öllum úr grasrótinni sem komu að þessu máli, Indefence-hópnum, Advice-hópnum, Samstöðu þjóðar gegn Icesave og ég er örugglega að gleyma mörgum. Það voru einnig mjög margir einstaklingar sem sendu okkur ábendingar, sendu þingmönnum tölvupóst, skrifuðu í blöðin og töluðu með og á móti. Það var mjög mikilvægt. Þannig á lýðræðisleg umræða að fara fram. Það voru margir sem lögðu sín lóð á vogarskálarnar.

Mig langar líka að taka undir með menntamálaráðherra sem benti á áðan að nú vissum við hvernig það væri þegar öll spjót beinast að þjóð. Það er ekki þægileg tilfinning en við erum því miður ekki ein um að hafa reynt það. Við urðum skyndilega skuldsett þjóð og vorum í erfiðri stöðu, fengum hvergi fyrirgreiðslu. Margar þjóðir hafa verið í þeirri stöðu áratugum saman. Við skulum ekki gleyma því og við skulum reyna að nýta þessa reynslu til að hjálpa þeim.

Icesave-málið er mjög merkilegt mál, jafnvel einstætt mál. Tvisvar sameinaðist þingið. Í bæði skiptin varð niðurstaðan mjög merkileg. Fjárlaganefnd þingsins og einstakir þingmenn smíðuðu fyrirvara við fyrsta Icesave-samninginn sem gengu út á það að hagsmunir hins meinta skuldara og lánardrottnanna voru samþættaðir. Ég hef alltaf haldið upp á þá niðurstöðu og mér finnst hún mjög merkileg og ég held að hún gæti nýst sem lausn á skuldavanda annarra þjóða líka.

Svo var það þegar við þurftum að verja okkur. Þá tókum við aftur höndum saman. Það var undir forustu Árna Páls Árnasonar, sem þá var ráðherra, því að hann var nógu stór maður til að kalla alla að borðinu. Ég held að við ættum að læra það af þessu að þegar við tökum höndum saman og vinnum saman þá getum við ýmislegt, kannski ættum við að gera það oftar.