141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa fögnuði mínum yfir þeirri yfirlýsingu sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir flutti hér áðan um að hún hefði nú lokið sinni síðustu Icesave-ræðu. Það er ekki vegna þess að mér hafi þótt þær ræður svo leiðinlegar eða vondar heldur hafa þær þvert á móti oft og tíðum verið leiftrandi af hugmyndum og réttlátri reiði. En ég er eins og hv. þingmaður orðinn hundleiður á þessu máli og vona að sú ræða sem þingheimur hlýðir nú á sé einnig hin síðasta sem ég flyt um Icesave-málið, en lengi er þó von á einum.

Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir mjög hófstillta og málefnalega umræðu sem þeir hafa háð hér í dag. Ég held að ég sé í sama skapi og þegar ég byrjaði, ég nenni ekki að vera í neinu pólitísku skæklatogi, ég bara tek undir með öllum. Mest vil ég þó taka undir með því sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði undir miðbik sinnar ágætu ræðu fyrr í dag, hann hafði lokið við að lýsa þeim sem að þessu máli hefðu komið og tók sérstaklega fyrir atgervishópinn Indefence. Ég hef mörgum sinnum úr þessum ræðustól þakkað þeim og það er langt síðan augu mín lukust upp fyrir því að þeir voru aflvakar og straumbreytar í þessu máli öllu. En ég vil hins vegar segja að það er hárrétt sem hann sagði að ýmsar hugmyndir sem frá þeim komu skiptu virkilega miklu máli í þeim undirbúningi að málaferlunum sem lauk með þessum glæsilega sigri okkar í dag. Til að mynda vil ég rifja það sérstaklega upp að það var frá þeim komið að ráðast í rannsókn á því með hvaða hætti svipaður bankafellir í ýmsum löndum Evrópusambandsins mundi leika þau lönd ef þau þyrftu að sæta því sama og ESA kærði okkur til Evrópudómstólsins fyrir, þ.e. að viðkomandi ríki þyrftu að ábyrgjast það að halda tryggingasjóðnum vel útbúnum að fjármagni. Þá kom einfaldlega í ljós að ef bankahrun hefði orðið eins og varð hér hefði ekkert land getað staðið undir því, en ég held að meðaltalið hafi verið að það vantaði 83% upp á að sjóðirnir gætu tekist á hendur þann vanda sem þá hefði riðið yfir. Það lýsir í hnotskurn upp umfang þessa máls og ég tel að þær upplýsingar og sú vandaða skýrsla sem á því var byggð hafi skipt mjög miklu máli.

Ég hjó eftir því í máli manna, og sérstaklega hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að hann var sá eini í þessari umræðu sem var kannski svolítið súr og spældur. Mér fannst þrátt fyrir það sem hann var að segja að hann væri samt að leita á þessum degi að sökudólgum og sektarlöndum. Ég tel samt sem áður að það sé rétt að lyfta því sem minni skoðun að ég tel að hv. þm. Bjarni Benediktsson hafi sýnt kjark á tveimur mikilvægum stigum þessa ferlis. Það var hann sem mælti svo skörulega fyrir samningaleiðinni í desember 2008 og hratt henni af stað fyrir hönd utanríkismálanefndar vitaskuld með miklu samþykki þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat. Það var líka hv. þm. Bjarni Benediktsson sem samþykkti síðasta Icesave-samninginn algerlega og stóð hér eins og klettur með ríkisstjórninni á þeim tíma. Fyrir það vil ég þakka honum. En hins vegar fannst mér hann ekki detta úr mjög háum söðli þegar hann var að tala um að ýmsum hefðu kannski orðið á mistök. Kannski er minni manna svo stutt en ég sat í ríkisstjórninni með Sjálfstæðisflokknum og ég man hverjir það voru sem samþykktu gerðardóminn þar sem átti að knýja okkur á einum sólarhring til að fallast á greiðslurnar og ég man alveg með hvaða hætti því var hrundið. Ég man alveg eftir samkomulaginu, sem var gert án þess að aðrir í ríkisstjórninni væru spurðir, við Hollendinga og ég man alveg eftir því hver það var sem stoppaði samsvarandi samning við Breta. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn. (Gripið fram í.) Bara til að allt sé hér á hreinu.

Mér finnst líka merkilegt að skoða þetta mál út frá stjórnarskránni. Það er alveg klárt að ég er þeirrar skoðunar að það að ríkisstjórnin sýndi á sínum tíma þann samkomulagsvilja af sinni hálfu sem birtist í því að koma með samninginn hingað reif Ísland út úr ákveðinni kreppu alþjóðlega. En að sama skapi vil ég líka segja það að aðrir valdþættir innan lands og aðrir hópar innan lands leiddu með atbeina sínum til þess að niðurstaðan varð miklu skaplegri og dásamlegri, niðurstaðan varð eins og hún er í dag. Þannig vil ég halda því fram að þessi þáttur stjórnarskrárinnar hafi staðist prófið vegna þess að þessi samslungnu en samt sundurleitu valdþættir runnu saman í einn í gegnum málskotsrétt forseta. Það skapaði samstöðuna hvort sem mönnum líkar betur og verr, og er ég þessa dagana kannski ekki ríkasti aðdáandi forseta Íslands.