141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Besta leiðin til þess að styrkja og styðja lítil og meðalstór fyrirtæki er að bæta almennan aðbúnað þeirra og ytra umhverfi viðskiptalífsins. Þar má nefna að lækka vaxtakostnað, fjármagnskostnað fyrirtækjanna, bæta aðgengi að mörkuðum og minnka sveiflur.

Í því sambandi bendi ég formanni Framsóknarflokksins á að hyggilegt væri að skipta um gjaldmiðil í landinu vegna þess að besta leiðin til að bæta ytri skilyrði viðskiptalífsins er að skipta út krónunni en sveiflur hennar, hátt vaxtastig sem leiðir af henni og gjaldeyrishöft eru eitt stærsta meinið sem íslenskt viðskiptalíf stendur frammi fyrir, lítil, meðalstór og stór fyrirtæki.

Vilji menn í raun og sann bæta aðbúnað íslenskra fyrirtækja tel ég að halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Mig langar að taka eitt dæmi í því sambandi vegna þess að við höfum áhyggjur af dreifðum byggðum landsins og þeirri atvinnuþróun sem þar á sér stað og fábreytni í atvinnulífinu. Það mun koma í ljós í aðildarviðræðum hvernig styrkjum til byggðastefnu verður háttað ef af aðildarsamningi verður. Það mun sem sagt koma í ljós hversu mikla fjármuni Evrópusambandið er tilbúið að veita inn í íslenska byggðastefnu til viðbótar við þá fjármuni sem Ísland veitir nú þegar í byggðastyrki. Við munum sem sagt fá það á hreint í aðildarviðræðum hvort hægt verði að margfalda þá styrki sem við veitum til atvinnulífs landsbyggðar því að fyrst og fremst munu þeir fjármunir beinast í nýsköpun, rannsóknir og þróun og atvinnuþróun í hinum dreifðu byggðum. Þetta eitt finnst mér næg ástæða til að við höldum áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég skora á formann Framsóknarflokksins, sem oft hefur litið á sig sem talsmann hinna dreifðu byggða landsins, að koma með í þann leiðangur að finna út úr því hvort við getum margfaldað þann stuðning sem við veitum atvinnuþróun á landsbyggðinni.