141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var gagnlegt að hlusta á hv. þingmann fara yfir viðhorf sín til hinna ýmsu greina frumvarpsins. Það sem ég vildi þó spyrja hv. þingmann sérstaklega um er að nú erum við á seinni hluta ferils sem hófst á sínum tíma með þjóðfundi, síðan var unnið áfram með það, 24. maí 2012 samþykkti Alþingi að vísa til þjóðarinnar tillögum stjórnlagaráðsins sem skyldu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október greiddu 64,2% atkvæði með því að frumvarpið skyldi lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Getur, eftir þessa afdráttarlausu niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni, vilji eða viðhorf einstakra þingmanna til einstakra greina gengið framar vilja þjóðarinnar í málinu? Hann er sá að þetta liggi til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Við getum öll skrifað okkar eigin útgáfu af stjórnarskrá, öll 63, en það er vilji þjóðarinnar sem hlýtur að verða ofan á eftir jafnafdráttarlausa niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu og fyrir liggur.