141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:32]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Um það síðasta vil ég segja að þar eru sett fram, eins og ég lýsti ítarlega í ræðu minni, matskennd ákvæði sem kalla á nýja túlkun. Ég spurði fyrst og fremst: Til hvers er verið að breyta breytinganna vegna ef það er ekki efnisinntak í því? Það var megingagnrýni mín.

Við vitum að auðvitað verður samningur við ESB borinn undir þjóðina. En ég upplifði það hér fyrir jól á næturfundi á síðasta degi þings að samþykkt voru lög um loftslagsmál sem stakt mál að mínu mati, þar var augljóslega gengið gegn fullveldi landsins.

Þessi breyting sem nú hefur verið gerð eða er lögð til felur í sér að mínu mati að slíkar breytingar geti náð fram að ganga, stakar breytingar, en auðvitað verður hugsanlegur ESB-samningur borinn undir þjóðina, það hefur alltaf staðið til. Það nægir mér ekki. Ég vil að það sé hægt að bera einstök frumvörp sem fela í sér aðlögun og inngrip í stjórnarskrána undir þjóðina.