141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:23]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að taka þetta mál upp. Ég hef einmitt verið dálítið hugsi yfir því atriði sem hann vék að. Það er með nokkuð margvíslegum hætti hvernig þessi útvistun er í verkefnum eins og reyndin hefur verið. Sum sveitarfélög hafa sameiginlega myndað byggðasamlög sem hafa þá verið með ákveðinn stjórnunarstrúktúr. Sum þau byggðasamlög hafa í raun og veru verið í formi fyrirtækja, dæmi á höfuðborgarsvæðinu er Sorpa, sem er komin beinlínis á samkeppnismarkað og lýtur ákveðnum lögum og reglum hvað það snertir.

Síðan eru núna varðandi yfirfærslu á stórum verkefnum, til að mynda málefni fatlaðra, gerðar ákveðnar kröfur um hversu stórar einingar þurfi til að geta haldið utan um slíkt, sveitarfélögin verða að fara sameiginlega í verkefnið ef þau geta ekki haldið utan um það hvert fyrir sig. Það mætist því með mjög ólíkum hætti miðað við að hverju þetta snýr. Við náum kannski að fara frekar yfir það í seinni hálfleik.