141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal kærlega fyrir ræðuna. Málið er umfangsmikið eins og hún kom inn á, það sést á hinu yfirgripsmikla nefndaráliti sem 1. minni hluti hefur skilað um málið. Í ræðu sinni komst hún aðeins inn í fyrsta efniskaflann þannig að mikið efni er enn órætt hér við 2. umr.

Mig langar aðeins að fara yfir það efni sem þingmaðurinn fór yfir varðandi ákvæði um breytingar á stjórnarskránni. Eins og það ákvæði hljóðar í frumvarpinu, að einungis þurfi einfaldan meiri hluta þingmanna og svo meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, tel ég það vera of auðvelt í framkvæmd að breyta stjórnarskrá. Með þessu ákvæði er hægt að mynda stemningu strax eftir kosningar, nái til dæmis róttækir flokkar völdum og fái til þess meiri hluta atkvæða í alþingiskosningum getur sá meiri hluti jafnframt farið strax af stað með stjórnarskrárbreytingar og farið með þær í þjóðaratkvæðagreiðslu — komið þeim í gegnum þingið með einfaldri atkvæðagreiðslu og svo í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá hafa stjórnarskrárbreytingar tekið gildi. Þetta er algjörlega óásættanlegt því að ég tel að það eigi að vera mjög erfitt að breyta stjórnarskránni. Þetta eru grundvallarlög, þetta er samfélagssáttmáli.

Þingmaðurinn fór aðeins yfir það hvernig þetta er gert í Noregi og svo hefur lagaprófessorinn, Björg Thorarensen, komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og verið með hugmyndir. Ég spyr þingmanninn: Hugnast henni að fara hina erfiðari leið, sem Björg Thorarensen leggur til (Forseti hringir.) með vísan í norsku stjórnarskrána, eða að við höldum breytingarákvæði stjórnarskrár (Forseti hringir.) óbreyttu eins og er í núverandi stjórnarskrá?