141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur brugðist við athugasemdum, ábendingum og tillögum eins og mögulegt er en auðvitað alltaf innan ramma þeirra tímamarka sem við höfum. Nú háttar svo til að minnisblað upp á fjórar blaðsíður, um áhrif þess að færa ákvæðin um náttúruverndina og auðlindirnar út úr mannréttindakaflanum í sérstakan kafla eða endurraða þessum ákvæðum, berst ekki fyrr en í dag.

Þess vegna er eðlilegt, og það segir sig sjálft, að við höfum ekki gert breytingartillögu að þessu leyti heldur ákváðum við að bíða eftir þessu áliti. Ég tel það bara góð vinnubrögð og rétt. Það sem liggur fyrir nefndinni er auðvitað þá að fara yfir þetta. Hvað varðar gildi einstakra fræðimanna þá segi ég fyrir mig að ég tel alla þá sem skilað hafa okkur álitum góðra gjalda verða. Það er ljóst að þar eru sumir fremstir meðal jafningja, þeir sem hafa sérstaka þekkingu á stjórnskipunarrétti, ég tek undir með þingmanninum um það.