141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt út af síðustu orðum hv. þingmanns sem ég kem hingað upp. Mér fannst mjög margt gott í þessari ræðu og ég var býsna sammála ýmsu í henni og ég er ekki að gera lítið úr álitum sérfræðinga í stjórnskipunarrétti sem eru nauðsynlegir á öllum stigum þessa máls, það er hins vegar tekið tillit til þeirra.

Hv. þingmaður mætti líta veröldina aðeins bjartari augum og horfa líka á þann nýja veruleika sem blasir við þegar menn eru að reyna að vinna þessa stjórnarskrá. Í margar aldir voru það nánast bara prestar, sýslumenn og stórbændur sem höfðu eitthvað um málin að segja. Mér er til efs að saman hafi komið fjölbreyttari hópur fólks til að setja sér stjórnarskrá. Við lifum nefnilega á tímum þar sem sífellt litríkari og fjölbreyttari hópur hefur æ breiðari þekkingu til að standa á. Því eigum við að fagna og við getum ekki sætt okkur við það að notast við þær aðferðir sem við höfum hingað til gert við breytingar á stjórnarskrá, að einskorða þær við mjög einsleitan hóp fólks sem býr við mjög svipuð skilyrði jafnvel og lífssýn og bakgrunn í menntun.

Á sama tíma og ég held að eðlilegt og sjálfsagt og gott sé að taka tillit til þeirra athugasemda sem hv. þingmaður setur fram á hún líka að fagna því að allur þessi stóri, fjölbreytti hópur fær nú loksins að segja skoðun sína.