141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:52]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og er honum sammála í þessu. Ég ber einmitt engan sérstakan kvíðboga fyrir því að hlutir hér séu orðaðir svona og settir fram með þeim gildum og áherslum sem við orðum í texta í stjórnarskrá, og að það sé það sem setji allt á annan endann eða skapi þá stórkostlegu óvissu sem af er látið af hálfu sumra sem ræða þau mál, síst með vísan til þess að við höfum á undanförnum þingum skrifað margvíslegan lagatexta sem í raun og veru hefur skilgreint þessi réttindi og ákvæði og almenningur hefur notið þess réttar án þess þó að hann hafi verið stílfærður í stjórnarskránni sem slíkri.

Mig langar í framhaldi af því að spyrja einkennilegrar spurningar vegna þess að það er kannski hin gagnrýnin sem kemur fram í umræðunni: Hvers vegna erum við að ræða stjórnarskrármál núna á síðustu vikum þessa kjörtímabils? Af hverju er málið á dagskrá núna? Af hverju skiptir máli að við ræðum það og knýjum á um að það nái fram?