141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:22]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi verið í einu ævintýri, ég man ekki hvort það er eftir H.C. Andersen, sem úlfurinn borðaði krít til að reyna að blekkja kiðlingana og komast inn til þeirra. Í mannlegum samskiptum og stjórnmálum verður maður stundum að borða dálitla krít og gera sig svolítið blíðan í röddinni til að ná árangri. Þetta mál er þannig vaxið að við þurfum öll að gera svolítið af því.

Í gær þegar formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mælti fyrir þessu máli sagði hún að nú yrði Sjálfstæðisflokkurinn að hætta að standa í vegi fyrir öllum þjóðþrifamálum eins og hann hefði gert allt þetta kjörtímabil. Það er ofsagt og ég gagnrýni slíka framsetningu í þessu máli. Við eigum ekki að vera í pólitísku karpi þegar við erum að tala um stjórnarskrána. Það skiptir máli í þessu að kalla eftir efnislegum sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, og það stendur upp á þingmenn þeirra flokka að koma með efnisleg sjónarmið (Forseti hringir.) en láta af átökum um málsmeðferðina sjálfa.