141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

málefni heimilanna.

[15:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Á flokksþingi okkar framsóknarmanna var mörkuð mjög skýr stefna um hvaða málaflokkar muni skipta mestu máli fyrir kosningar. Þeir eru málefni heimilanna og atvinnulífið. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hann er eiginlega að gera í málefnum heimilanna. Hvað er ríkisstjórnin að gera í málefnum heimilanna?

Nýlega lagði ASÍ fram tillögur um breytt húsnæðislánakerfi og tekur þar undir þær tillögur sem komu fram í skýrslu verðtryggingarnefndar sem var unnin fyrir þáverandi ráðherra efnahags og viðskipta um að breyta húsnæðislánakerfinu í átt að því danska. ASÍ hefur líka talað um að taka upp fastgengisstefnu til að draga úr verðbólgu og síðan má segja að tekið sé undir með okkur framsóknarmönnum um að afnema verðtryggingu á neytendur.

Í tillögum ASÍ um breytt húsnæðislánakerfi er lagt til að sett verði lög um að sérhæfðar stofnanir sinni húsnæðislánum, að þar verði fastir nafnvextir til skemmri og lengri tíma og að sett verði ákveðið þak varðandi veðhlutfall. Svo er hin svokallaða jafnvægisregla þar sem bókhaldslegt jafnvægi á milli eigna og skulda verði tekið upp varðandi útgáfu á húsnæðisbréfum, þ.e. húsnæðislánum.

Er þetta eitthvað sem ráðherrann er að vinna að? Megum við gera ráð fyrir því að fá frá ráðherranum einhvers konar tillögur fyrir þinglok annað en sem varðar til dæmis breytt fiskveiðistjórnarkerfi sem virðist vera helsta áhugamál þessarar ríkisstjórnar? Eru einhverjar tillögur að koma gagnvart heimilunum?