141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samkeppni á bankamarkaði.

540. mál
[16:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hefur komið fram hér að átt hefur sér stað gífurlega mikil samþjöppun á fjármálamarkaði, á bankamarkaðinum. Okkur fannst nóg um þegar stóru gömlu bankarnir sem nú eru fallnir flugu sem hæst en þó var samþjöppunin á fjármálamarkaðinum þá miklu minni en hún hefur orðið á síðustu mánuðum og missirum. Það er gríðarlega mikið áhyggjuefni. Það er líka alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan að ein ákvörðun, t.d. um að Arion banki mundi eignast Afl sparisjóð, mun hafa dómínóáhrif fyrir sparisjóðakerfið og mjög hætt er við því að kerfið stæðist það einfaldlega ekki, gæti ekki verið rekið sem sjálfbært kerfi ef við færum að missa úr hluta af því sparisjóðakerfi sem er í dag. Það hefur því miður dregist mjög mikið saman. Við getum ekki breytt því úr þessu en það sem við verðum að gera er að tryggja að sú þróun haldi ekki áfram vegna þess að hún er mjög hættuleg. Ég vil því fagna þeim yfirlýsingum sem hafa komið fram í þá veru í umræðunni. Úrskurðurinn varðandi Sparisjóð Svarfdæla er auðvitað mjög skýr vísbending um vilja Samkeppniseftirlitsins (Forseti hringir.) og ábendingar og áhyggjur forstjóra Samkeppniseftirlitsins núna á dögunum eru líka vísbending í þá sömu átt. Þess vegna held ég að það væri mjög háskalegt ef sú (Forseti hringir.) staða kæmi upp að sparisjóðakerfið yrði veikt frá því sem nú er.