141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:15]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég held að okkur þingmönnum hljóti að vera ljóst að forseta er nokkur vandi á höndum og það er nú fleira undir á þessu þingi en stjórnarskrá og fiskur. Það hlýtur að þurfa að reyna að skipuleggja vinnutímann vel og hafa sem best samkomulag eftir því sem mögulegt er um það hvernig við notum tímann vel. Þetta snýst náttúrlega ekki síst um það að reyna að vinna með skilvirkum hætti og nota tímann vel því að utan þessara tveggja stóru mála bíður fjöldi mikilvægra mála sem þurfa úrlausn. Ég vonast til þess og endurtek að það þurfi ekki að taka langan tíma að koma þessu máli til nefndar hér eftir 1. umr.

Varðandi það sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi um hagvöxt, og finnst mér hann heldur svartsýnn svona í byrjun ársins, þá ætla ég að leyfa mér að gleðja hv. þingmann. Ekki ætla ég nú að segja að það séu bein viðbrögð við áskorun hans um að grípa til aðgerða til að auka hagvöxt, en ég get að minnsta kosti upplýst hv. þingmann um það að ég var að fá í símann minn skilaboð um að hægt verður að auka loðnukvótann um 120 þús. tonn í viðbót. Það eru þó nokkrir milljarðar í þjóðarbúið og gleður hv. þingmann væntanlega þannig að hann fari í (Gripið fram í: Heyr, heyr.) aðeins betra skapi að sofa í kvöld.