141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:53]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef menn fara yfir þær greinargerðir og þær umsagnir sem lágu fyrir um málið í fyrravor sem og þá vinnu sem síðan hefur verið unnin þá er tiltölulega fljótlegt að bera það saman við þær breytingar sem hafa verið gerðar. Reynt hefur verið að taka tillit til þess sem málefnalegt taldist og sæmilegt samkomulag gat orðið um. Auðvitað er þetta frumvarp málamiðlun margs konar sjónarmiða. Það er gagnrýnt úr ýmsum áttum eins og þegar heyrist. Menn geta valið þann kost að finna því ýmislegt til foráttu, en það mun ekki breyta hinu að viðfangsefnið yfirgefur okkur ekki og ef við leiðum þetta ekki í heila höfn nú heldur glíman áfram við það að ná niðurstöðu í þessi mál og skapa um þau meiri sátt.

Ég get nefnt sem dæmi einn þátt sem var gagnrýndur af ýmsum sérfræðiaðilum, meðal annars óháðum aðilum sem ráðuneytið fékk í fyrravetur til að vinna greinargerð. Sagt var að það þyrfti meira svigrúm og möguleika á að skapa meiri festu í stuðningsaðgerðum við byggðarlögin. Því hefur nú verið mætt meðal annars með því að rýmka (Forseti hringir.) ákvæði um mögulega svæðisbundna útleigu og gera mögulegt að leigja að einhverju leyti út veiðiheimildir til meira en eins árs í senn.