141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:56]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Undanfarin ár hafa menn rætt um að það þyrfti að vinna sig út úr þessu bótakerfi, það er auðvitað ekki gott að sitja fastur í því árum og áratugum saman. Ég vil þó taka fram fyrir mitt leyti að ég hef gert skýran greinarmun á skelbótunum annars vegar og rækjubótunum hins vegar. Fyrir því eru gildar ástæður. Annars vegar þær að skelbæturnar eru áfram á þeim stað sem skelin var sótt eða nýtt og unnin og þær hafa ekki færst til. Öðru gildir um rækjubætur sem fara að dreifast núna vítt og breitt um landið vegna framsals. En auk þess hefur sem betur fer dregið úr þörfinni fyrir þær að undanförnu þar sem rækja hefur komið upp aftur á slóðum þar sem hún veiddist ekki um tíma. Þær væntingar manna um að svigrúm verði til þess að draga nokkuð úr þeim veiðiheimildum sem þarf í þessar bætur ber að skoða á næstu árum. Frumvarpið gengur skemur en ýmsar tillögur sem komið hafa fram á undanförnum árum um að afnema bæturnar kannski með öllu á tiltölulega skömmum tíma, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir.