141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:01]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bjartsýnismaður og alltaf bjartsýnn á það að mál fái farsæla úrlausn á Alþingi, hef þá trú á Alþingi sem stofnun að það muni axla ábyrgð sína og skila öllu því góða verki sem það lífsins mögulega getur á þeim tíma sem við höfum eftir fram undir páska. Ég ætla hins vegar ekki úr þessum ræðustól að fara að gera upp á milli einstakra mála, ég lít ekki svo á að það sé eðlilegt að menn séu settir í þá stöðu að þeir eigi að fara hér og nú að velja á milli einhverra tiltekinna einstakra mála. Það er eitthvað sem menn ræða og reyna eftir atvikum að komast að heildarsamkomulagi um.

Það ber ekki að skilja þá hefðbundnu gagnrýni tiltekinnar skrifstofu í fjármálaráðuneytinu á kostnaðarmati þannig að með því sé verið að segja að yrði frumvarpið óbreytt að lögum væri þar með um brot á stjórnarskrá að ræða. Það er alls ekki svo. Það ber hins vegar að vísa til þess að menn þurfa að gæta tiltekinna sjónarmiða sem hafa í heiðri að sjálfsögðu fjárstjórnarvald Alþingis. Það þarf að vera skýr afmörkun á öllu því (Forseti hringir.) sem sett er í sérstakan farveg með eyrnamerkingu tekjustofna o.s.frv., en það er vel þekkt. Þá væru ansi mörg brot á stjórnarskránni í gangi í lögum á Íslandi ef bæri að lesa þetta bókstaflega eins og hv. þingmaður gerði.