141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að strandveiðifrumvarpið megi afgreiða sérstaklega. Nái frumvarpið ekki fram að ganga tel ég í öllu falli rétt að afgreiða strandveiðifrumvarpið. Hins vegar fer það til hv. atvinnuveganefndar þingsins núna og þetta mál er að koma þar inn þannig að ekkert er eðlilegra en að þessi tvö mál fái þar umfjöllun í samhengi. En breytingin varðandi strandveiðifrumvarpið þarf að ná fram að ganga hvað sem öðru líður.

Varðandi leigupottinn og tegundaval í hann get ég ekki svarað því af hverju þarna er fyrst og fremst miðað við þorskinn og af hverju ekki er tekið meira af uppsjávartegundunum. Þorskurinn er auðvitað sú tegund sem mest munar um hjá minni útgerðum í smábátaútgerðinni og hjá kvótalitlum útgerðum. En ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að þarna hefðu mátt vera önnur hlutföll inni.