141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var akkúrat það sem ég var að koma inn á. Mér hefur fundist að stefna ríkisstjórnarflokkanna hafi ævinlega snúist um veiðar og vinnslu og þar er fækkun starfa og í mörgum hverjum tilvikum er það hið besta mál. Ég hef heyrt marga lýsa því að þegar þeir hafi fengið hátæknifyrirtækin til þess að koma inn í fyrirtækið hafi það eytt erfiðu starfi, leiðinlegu starfi sem byggðist á því að fólk þurfti að vinna baki brotnu jafnvel með heilsuna undir. Í staðinn var komin einhver hátæknigræja sem gerði það að verkum að hægt var að fækka störfum og auka hagkvæmni, en það var komið nýtt starf sem var að fylgjast með tæknigræjunni, viðhalda henni og halda áfram að þróa hana. Þá er aftur kominn kostnaður við það og fjölgun afleiddra starfa eins og hv. þingmaður kom inn á.

Ég tel að það sé hið besta mál og hin eðlilega þróun. Ég get nefnt sem dæmi sérkennilegheitin við handbeitta línu. Á meðan til eru vélvæddir bátar sem afkasta mun meira og ná fram meiri hagræðingu — það er t.d. sparnaður í olíu en við vorum að tala um olíu í dag og loftslagsáhrif — er verið að keyra með beitu á þjóðvegum landsins, fram og til baka milli landshluta og fullt af fólki haft í erfiðari vinnu af því að menn vilja ekki nota tæknina sem er til. Það er mjög sérkennilegt.

Hv. þingmaður nefndi frábær fyrirtæki eins og Codland og Kerecis og það eru dæmi um hvað okkur hefur tekist miklu betur. Í dag fáum við Íslendingar af 5 kílóum af þorski á bilinu 2.000–2.500 kr. fyrir fiskinn — ekki bara flakið heldur er viðbót, það eru hausar, hryggur, lifur og annað — en fyrirtækið Codland (Forseti hringir.) er að velta fyrir sér hvort hægt sé að ná í 5.000 kr. með því að fá inn líftæknina, fá inn hinar (Forseti hringir.) skapandi greinar, fá inn þekkingarauðinn. (Forseti hringir.) Það yrði allt annað líf.