141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að velta aðeins upp þeirri þjóðhagslegu hagkvæmni sem hv. þingmaður kom inn á svona til að setja hlutina í samhengi. Unnið hefur verið að því í landinu í gegnum Samkeppnisstofnun að koma í veg fyrir fákeppni á matvörumarkaðnum. Nú ná engin samkeppnislög yfir sjávarútveginn. Þykir hv. þingmanni það eðlileg þróun að það sé þessi mikla samþjöppun í sjávarútvegi og eignartengsl á milli fyrirtækja og annað, sem er nú reynt að bregðast við í frumvarpinu, þykir honum sú mikla samkeppni eðlileg? Og þegar talað er um þjóðhagslega hagkvæmni og arðsemi er þá verið að tala um arðsemi fárra og hagkvæmni fárra og ekki horft neitt til þess að hægt sé að hafa arðsemi sem dreifist til fleiri aðila og fleiri njóta góðs af?

Það er auðvitað sjónarmið eitt og sér að það sé mjög gott að fáir aðilar græði sem mest og hafi sem mest út úr sjávarútvegi fyrir sig og þjóðin fái eðlilegt afgjald af því. En er ekki líka þjóðhagslega hagkvæmt að byggðirnar sem hafa byggst upp í kringum landið með innviðum sem miða að því að þær geti með eðlilegum hætti haft útgerð, vinnslu og nýsköpun í sínum sjávarbyggðum, að sú hagkvæmni dreifist líka og nýtist fleirum í stað örfárra? Ef við færum út í það gætu eflaust átta stórir togarar tekið allan afla á Íslandsmiðum. Er hv. þingmaður að tala um að við eigum að ganga götuna til enda í hagkvæmni fárra en ekki heildarinnar?