141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri til að vekja athygli þingmanna á grein sem Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla í New York, skrifaði á vefsvæði sitt á Eyjunni. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Framsóknarmenn vilja afnema verðtryggingu neytendalána. En á sama tíma vilja þeir halda í krónuna. Þeir vilja leiðrétta stökkbreytt lán. En á sama tíma vilja þeir lækka skuldir ríkisins.

Það sem kemur mér helst á óvart er að þeir hafi ekki hreinlega ályktað að þeir vilji eiga kökuna og borða hana líka.“

Jón Steinsson heldur áfram, með leyfi forseta:

„Verðtryggingin er blóraböggull. Hún er skilgetið afkvæmi krónunnar og þess að á Íslandi er enginn pólitískur stuðningur fyrir því að reka sterkan gjaldmiðil. Framsóknarmenn tala um að bæta umgjörð krónunnar. En ég hef aldrei heyrt þá verja Seðlabankann þegar hann hækkar vexti til þess að halda aftur af verðfalli krónunnar.

Hinn raunverulegi vandi er verðbólgan. Sá vandi verður ekki leystur með því að banna verðtryggð lán. Það mun bara gera illt verra með því að koma í veg fyrir að fólk geti dreift háum vaxtagreiðslum þegar verðbólga er há yfir líftíma láns síns. […]

En framsóknarmenn tala eins og afnám verðtryggingar muni á einhvern undraverðan hátt lækka vexti á Íslandi.“

Virðulegi forseti. Verðtryggingin er slæm og við þurfum að losna við hana, en þegar við finnum leið til þess þá þurfum við að svara spurningum eins og þessum: Hvernig komum við í veg fyrir það að greiðslubyrði á lánum hækki með því að afnema verðtrygginguna? Hvernig gerum við það án þess að skerða lífeyri fólks til framtíðar? Það gerum við reyndar með því að taka upp annan gjaldmiðil og Seðlabanki Íslands hefur gert góða og nákvæma greiningu á því sem hagstæðast er að gera í (Forseti hringir.) þeim efnum. Það er að taka upp evru og ég (Forseti hringir.) hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér skýrslu Seðlabankans.