141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að þeir sem tekið hafa til máls í umræðunni eru sammála um mikilvægi sparisjóðanna. Fram kemur í máli þingmanna að við viljum styðja við starfsemi sparisjóða og að mínu mati annarra fjármálastofnana sem byggja á samvinnuhugmyndafræðinni, hugsjóninni um samvinnu, sjálfsábyrgð og samfélagslega ábyrgð fjármálafyrirtækja.

Ég vildi nefna nokkrar hugmyndir í framhaldi af því sem þegar hefur verið rætt. Eitt af því sem ég mundi vilja beina til hæstv. fjármálaráðherra er að skoða möguleikana á því hvort lánasvið Byggðastofnunar gæti hugsanlega orðið hluti af endurreisn og uppbyggingu sparisjóðanna. Lánasviðið hefur verið að sinna fjármögnun fyrirtækja fyrst og fremst út á landi og þar má finna þá sparisjóði sem enn þá lifa.

Ég vil líka taka undir mikilvægi þess að horfa til sparisjóðanna til að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði. Nú búum við við meiri samþjöppun á fjármálaþjónustu en fyrir hrun og er það fullkomlega óásættanlegt. Þáttur í því að taka á þeirri samþjöppun er að skoða af fullri alvöru aðskilnað fjárfestinga og viðskiptabanka. Samkeppniseftirlitið hefur líka bent á að stimpilgjaldið, sem er skattur frá hinu opinbera, er samkeppnishindrun og liggja nú þegar fyrir tvö frumvörp í þinginu um afnám á stimpilgjaldi vegna kaupa á húsnæði. Síðan er mjög mikilvægt til að tryggja samkeppnina og að bæta neytendavernd eins og hægt er.

Önnur hugmynd sem ég hef velt upp er hvort tímabært sé að við lítum á tölvuþjónustu eða bakhliðina á fjármálaþjónustu sem eitt af grunnkerfunum. Kannski er jafnmikilvægt að slíkt sé í höndum hins opinbera og vegakerfið eða heilbrigðiskerfið til að tryggja jafna aðstöðu þeirra sem sækja vilja fram í fjármálaþjónustu.

Þetta eru nokkrar hugmyndir sem ég vildi nefna en ég fagna virkilega (Forseti hringir.) samstöðu okkar þingmanna um að hafa áfram sparisjóði á Íslandi.