141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í 19. gr. er sem sagt verið að ræða um tekjur af leigu aflaheimilda úr leigupotti og þá skiptingu að 40% fari til ríkisins, 40% til byggðanna í gegnum landshlutasamtök og 20% í rannsóknir. Eins og kemur hér fram er verið að tala um að skipa nefnd til að fjalla um með hvaða hætti þessi úthlutun fer fram. Það kemur fram í greinargerð. Það er mjög mikilvægt að landshlutasamtök og sveitarfélögin komist að samkomulagi um hvernig þessum tekjum verði best varið en ekki bara að þau byggðarlög sem eru vel sett í dag fái þessar tekjur. Það á að nýta fjármagnið til að byggja upp þær byggðir sem hafa farið halloka, skapa jafnvel fjölbreyttari atvinnutækifæri til að byggja á styrkari grunni og nýta þetta sem best.

Ég held að þetta gæti orðið lyftistöng fyrir margar þessar byggðir og bind vonir við að þessi vinnuhópur sem á að skipa til að fara nánar í þessa útfærslu skili frá sér góðum tillögum svo þetta fjármagn nýtist sem best.