141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki þetta auðvitað. En ég ætla líka að vera sanngjarn, maður getur ekki alltaf sakað aðra um að vera ekki sanngjarnir. Það er margt sem kemur til. Í fyrsta lagi er það náttúrlega óvissan — þetta er röðin: Óvissa í greininni, það eru markaðsmálin, litlar og meðalstórar útgerðir af því að við erum alltaf að tala um þær og síðan vandamál í sambandi við ýsuúthlutunina vegna þess að veiði á miðunum er ekki í samræmi við stillimyndina hjá Hafrannsóknastofnun. Það eru þessir fjórir þættir sem hafa þessi áhrif.

Menn fá veiðigjöldin núna af fullum krafti. Þau leggjast reyndar misjafnt á útgerðir. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur að sumir skuli fá afslátt en ekki aðrir vegna þess að þau eru svo há, það er verið að berjast fyrir því út af þeim þætti. Á sama tíma, hvort sem við getum verið sammála eða ósammála um að þau séu of há eða lág, kemur hitt þrennt til viðbótar. Það er óvissa í greininni. Síðan eru það markaðsmálin, það er hrapandi verð. Ætli það muni ekki upp undir 100 kr. á meðalverði á þorski á þessu ári og síðasta ári? Auk þess eru vandamál í sambandi við ýsuveiðar. (Forseti hringir.) Það eru þessir þættir sem hafa auðvitað áhrif.