141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann gerði m.a. að umtalsefni að sú gagnrýni sem komið hefði fram hér frá þeim sem tekið hefðu þátt væri kannski ekki alveg nógu málefnaleg. Hv. þingmaður endaði á að segja að frumvarpið væri málamiðlun sem hann væri í meginatriðum á móti. En hvað um það.

Hv. þingmaður talaði um það þegar kvótinn var settur á á sínum tíma. Við þekkjum auðvitað söguna af því þegar svört skýrsla kom fram sem sagði að ef menn mundu ekki bregðast við og draga verulega úr veiðum, úr því sóknarmarki sem við höfðum, mundi allt hér hrynja endanlega. Það voru vissulega deilur á þeim tíma um hvort úthluta ætti niður á byggðarlög, niður á skip eða jafnvel fiskvinnslur og þar fram eftir götunum og voru auðvitað kostir og gallar við allt saman. Það var hins vegar niðurstaðan.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út af þeirri gagnrýni sem hann kom inn á í ræðu sinni hvort honum fyndist þá ekki umhugsunarvert í ljósi orða sinna um hvernig staðið var að úthlutun á makrílkvótanum á þessu kjörtímabili, sem hefur reyndar verið gagnrýnt mjög mikið af mörgum. Þá á ég við það að menn gátu búið sér til viðmiðun með því að veiða í gúanó og sóa verðmætum. Menn gátu þar af leiðandi gert ekki þriggja ára viðmiðun, heldur jafnvel tveggja ára viðmiðun og svo framvegis. Um það hafa verið töluverðar deilur. En finnst hv. þingmanni þá ekki að núverandi stjórnarmeirihluti hefði þá átt að standa öðruvísi að úthlutun á makrílkvótanum fyrst menn gagnrýna það?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann til viðbótar um það sem snýr að svokölluðu ráðherravaldi. Ég tel að ég og hv. þingmaður séum nokkuð sammála þar. Í þeim breytingum sem gerðar eru í frumvarpinu, alveg sama hvort þær varða strandveiðar eða annað, er vald ráðherra svo ofboðslega mikið, t.d. að ráðherra geti tekið tillit til aldurs manna og þar fram eftir götunum. Getur hv. þingmaður tekið undir þá gagnrýni mína að það eigi ekki að vera í lögunum?

(Forseti (SIJ): Forseti vill geta þess að klukkan í borði er biluð og forseti mælir tíma úr forsetastóli.)