141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ágæta ræðu en mér fannst hann sveiflast dálítið á milli markaðshugsunar, sem hann hefur greinilega trú á — ég geri ráð fyrir að einstaka þingmaður í þingflokki Samfylkingarinnar hafi trú á markaðnum — og svo þess sovétkerfis sem við erum hér að byggja upp.

Í fyrsta lagi: Gerir hv. þingmaður greinarmun á ríki og þjóð? Fremst í greininni stendur að nytjastofnarnir séu ævarandi eign íslensku þjóðarinnar en svo eiga ríkisstjórnin og ráðherra að fara með yfirráðin alla tíð, þ.e. stjórnmálamenn fara með yfirráð yfir þessu — er þá enginn munur á ríki og þjóð?

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað gerist eftir 20 ár? Hann var að vandræðast yfir því að miðað væri við 20 ár, að menn héldu sem sagt kvótanum sínum. Hvað gerist svo segjum tveimur til þremur árum áður en því tímabili lýkur? Hvers lags upplausn verður þá í sjávarútveginum þegar menn verða að búast við því að allt verði tekið af þeim?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér frumvarp mitt um að dreifa kvótanum á alla þjóðina og þá gjörsamlegu markaðsvæðingu sem því fylgir.