141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Um ráðherraræði er frá því að segja að sjávarútvegsráðherra hefur því miður í nokkuð marga áratugi rekið sjávarútvegsmálin nánast eins og jarlsdæmi. Þetta frumvarp er engin undantekning á því en þó held ég að ráðherraræðið sé linað frá því sem áður var í þessu frumvarpi. Um muninn á ríki og þjóð — við höfum tekist á um það áður, ég og hv. þingmaður, eða réttara sagt um muninn á þjóðareign og ríkiseign. Þjóðareign er ákveðið hugtak og ríkiseign er annað hugtak. Um það getum við rætt frekar í umræðum um stjórnarskrána sem taka við af þessu máli. Hins vegar er það auðvitað svo að til þess kjörnir fulltrúar hljóta að fara með málefni þjóðareignarinnar eins og önnur sameiginleg mál þjóðarinnar. Öðruvísi er ekki hægt að svara þessu.