141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talaði um að með því fyrirkomulagi sem frumvarpið boðar yrðu þeir sem þyrftu að leigja til sín kvóta leiguliðar ríkisins. Honum var tíðrætt um hugtakið leiguliðar. Ég spyrja hv. þingmann: Hvað eru þá þeir sömu aðilar í dag, þeir sem eru háðir því að fá ekki aðgang að leiguheimildum til veiða nema með því að leigja af núverandi kvótahöfum og fá litlu ráðið um verðlagningu eða framboð? Hvað er það ástand samanborið við opinn leigumarkað með aflaheimildir þar sem öll leiguviðskipti fara fram um kvótaþing, ekki bara í þessum 20 þús. tonna leigupotti sem frumvarpið gerir ráð fyrir heldur líka þau 25% af öllum aflaheimildum sem útgerðin má leigja frá sér? Það mun fara inn á kvótaþing og líka inn á þennan opna leigumarkað. Það þýðir að um þriðjungur allra heimilda er þá á opnum leigumarkaði um kvótaþing. Útgerðin hefur ekkert um verðlagningu eða framboð að segja. Ég hef lesið fiskveiðistefnu Framsóknarflokksins, ætlar þingmaðurinn núna að tala gegn því fyrirkomulagi og halda því fram að menn væru betur settir í óbreyttu kerfi en með því móti sem boðað er í frumvarpinu?

Með öðrum orðum. Erum við ekki með leiguliða útgerðarinnar í dag? Þeir eru ekki leiguliðar ríkisins en þeir eru leiguliðar útgerðarinnar.

Mér þætti vænt um að heyra skoðun þingmannsins á því. Ég kem í síðara andsvari að samningaleiðinni sem hv. þingmaður þekkir.