141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Í lok síðasta þings þegar þessi mál voru síðast til umræðu hefði verið hægt að klára málið með ákveðnum breytingum og beitti Framsóknarflokkurinn sér mjög fyrir því. Þá var ekki verið að semja við eina ríkisstjórn. Það var ekki verið að semja við tvo ríkisstjórnarflokka heldur var verið að semja við marga flokka innan hvors ríkisstjórnarflokks vegna þess að ríkisstjórnin gat ekki komið sér saman um eitt né neitt í því máli. Framsóknarflokkurinn taldi þá, og telur enn, að það sé mikilvægt að ná breiðri sátt um sjávarútvegsmálin og mikilvægt að skapa sjávarútveginum rekstrarumgjörð sem geri það að verkum að menn sjái aðeins fram í tímann, þeir sem reka fyrirtæki vita að menn verða að sjá meira en viku fram í tímann. Það var ekki vilji til þess þá og frá þeim tíma hefur ekki verið reynt að leita sátta á neinn hátt hvað varðar nokkuð í tengslum við sjávarútvegsmálin og það hefur ekki skort á vilja framsóknarmanna til að ræða málin og klára þau í breiðri sátt. Hv. þingmaður veit það því að þingið var allt í háalofti síðastliðið vor þegar þetta var síðast til umræðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að við sjáum afraksturinn 15 dögum fyrir þinglok. Hv. þingmaður getur ekki sagt það með réttu að málið hafi verið unnið og unnið. Hingað koma mál til þinglegrar meðferðar. Hv. þingmaður staðfesti hér að ágreiningur hefði verið um málið innan ríkisstjórnarflokkanna allt kjörtímabilið sem hefur kallað á að menn vinni það innbyrðis, sín á milli, og þeir koma núna 15 dögum fyrir kosningar og ætla sér að (Forseti hringir.) klára málið. Það eru ekki þau vinnubrögð sem við eigum að viðhafa í máli mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar sem er sjávarútvegur.