141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Evrópusambandið er viðamikið batterí sem tekur sér mörg ár í að breyta stefnu sinni, þar á meðal fiskveiðistefnu sinni. Þetta er eitt af þeim sjónarmiðum sem komið hafa fram í umræðunni og má lesa um á heimasíðu Evrópusambandsins þótt ég hafi ekki náð að fletta því upp eins og hv. þingmaður á meðan hún talaði. En það er stór munur á því hvernig Evrópusambandið horfir til sjávarútvegs og hvernig við höfum byggt upp okkar kerfi. Við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án ríkisstyrkja. Ég tel að við eigum bara að vera stolt af því. Ég tel að við eigum að leyfa okkur að vera ánægð og njóta þess að vera ábyrg fiskveiðiþjóð. Við erum fyrirmynd annarra á þessu sviði. Ég er stolt af því. Við erum stór fiskveiðiþjóð. Við erum bara 300 þúsund í þessu landi. Við erum 19. stærsta fiskveiðiþjóð í heimi. Við höfum ákveðna sérstöðu. Við höfum önnur sjónarmið uppi en Evrópusambandið.

Ég er ekki ein af þeim sem stóðu að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að við eigum ekki erindi þar inn. Ég tel hagsmunum okkar betur borgið, sérstaklega með tilliti til auðlinda okkar, utan Evrópusambandsins en innan. Ég ber virðingu fyrir því að hv. þingmaður er á annarri skoðun og fylgist örugglega með því dag frá degi hvernig umræðum þar varðandi sjávarútvegsmálin er háttað. En ég er einfaldlega á þeirri skoðun að við höfum þessa sérstöðu í krafti þess að við erum stór fiskveiðiþjóð og að við rekum hér sjálfbæra atvinnugrein sem skilar hagnaði án ríkisstyrkja.