141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hér og bregðast við ræðu hv. þingmanns.

Hv. þingmaður talar um ófriðarbál. Mér sýnist nú að menn á þeim bænum séu ekki beint ósáttir við að halda því báli vel logandi. Ef sjálfstæðismenn telja að þeir verði áfram með eldspýturnar og kveiki í því báli verður svo að vera. Ég ætla rétt að vona að skynsamt fólk í þessu landi muni sjá hvers konar þjóðarsátt þetta frumvarp boðar.

Ef hv. þingmaður telur að frumvarpið sé einhver brandari er gott að það létti lund hennar með einhverjum hætti, þá er til einhvers unnið að vinna það. Hv. þingmaður talar um að við höfum haft fjögur ár. Ætli það sé nú ekki eitthvað til í því að þeir sem verja þetta kerfi, hagsmunaaðilar og aðrir þeim tengdir, með kjafti og klóm hafi ekki haft eitthvað um það að segja að við erum búin að vera svo langa tíma í þessu máli. Ætli við þekkjum ekki vel það fólk sem staðið hefur í lappirnar í málinu og barist fyrir því að breyta kerfinu. Við fengum umboð þjóðarinnar til þess að breyta því. (REÁ: Með meiri hluta á þingi?)

Við höfum þurft að berjast fyrir því og hagsmunaaðilar hafa beitt sér grimmilega og miskunnarlaust í málinu gegn breytingum. Ég held að þeir sem vilja í hjarta sínu breyta kerfinu hafi tækifæri núna. Ég tel að þarna sé rétt fram sáttarhönd, að þetta sé málamiðlun sem menn mega ekki hlaupa frá.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað segir hún um afleiðingarnar sem verða af því kvótakerfi sem við búum við núna fyrir byggðir í kjördæmi hennar, eins og t.d. Vestmannaeyjar þar sem sveitarfélagið þar horfði upp á að fyrirtæki var selt með aflaheimildum? Menn voru nú ekki par sáttir við þær afleiðingar kerfisins? Hvað segir hv. þingmaður við því? Á það bara að vera svona? Er þetta lögmál markaðarins í sinni tærustu mynd? Er það bara allt í lagi?