141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir slæmt að hv. þingmaður hafi ekki treyst sér til að svara þeirri spurningu sem ég beindi til hennar í lokin. Hv. þingmaður talar um að sú stjórn sem nú situr sé að troða hugmyndafræði sinni ofan í kokið á landslýð. Hvað höfum við búið lengi við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins? (Gripið fram í: Heyr.) Hvað höfum við búið lengi við þá hugmyndafræði sem leiddi til hruns í landinu? Er ekki kominn tími til að menn viðurkenni að sú hugmyndafræði gengur ekki upp? Það hefur farið fram skoðanakönnun um nýtingarleyfi í fiskveiðistjórnarkerfinu og 70% þjóðarinnar er hlynnt nýtingarleyfum. Svo við skulum bara tala varlega í þessum efnum.

Hv. þingmaður talaði um heimilin í landinu. Hve mörgum heimilum úti á landsbyggðinni hefur blætt vegna þessa kvótakerfis þegar fólkið á þeim heimilum missti atvinnu (Forseti hringir.) og annað þegar menn fluttu með aflaheimildir og öll atvinna lagðist af?