141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ansi kostulegt þegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir er farin að slá um sig með skoðanakönnunum. Ég ætla að benda hv. þingmanni á það að samkvæmt seinustu skoðanakönnun held ég að 80% þjóðarinnar hafi viljað nýja ríkisstjórn. Eigum við ekki að hlusta á þjóðina? 70% þjóðarinnar vildu ekki inn í ESB, eigum við ekki að hætta því bixi? Á ég að halda áfram að telja upp?

Nei, það er ekki hægt að koma hérna og segja að 70% þjóðarinnar séu hlynnt einhverju atriði sem pikkað er út úr þessu. (Gripið fram í.) Það er alveg hægt að komast að sátt um þau atriði sem betur mega fara í þessu kerfi. Við höfum sagt það allan tímann. Þess vegna meðal annars tókum við fullan þátt í sáttanefndinni vegna þess að við héldum að alvara væri á bak við það. Þess vegna getum við sest niður og rætt það. En að koma með svona plagg sem er ekkert annað en hugmyndafræðileg frústrasjón eftir að hafa verið í 18 ár í stjórnarandstöðu — það er örugglega mjög fúlt — og láta þjóðinni blæða (Forseti hringir.) fyrir það er ekki boðlegt.