141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð sammála því sem fram kom hjá hv. þingmanni og hann hafði eftir Þóroddi Bjarnasyni, að það er ekkert endilega víst að hægt sé að tryggja og styrkja allar byggðir í landinu út frá veiðum og vinnslu. Það sem ég held að sé besta framlag sjávarútvegsins til okkar allra, þjóðarinnar í heild, er að við tryggjum að hann sé stöndugur og arðbær þannig að við sem þjóð fáum sem mest út úr greininni. Síðan er ákveðin þróun sem á sér stað óháð því hvaða fiskveiðistjórnarkerfi við höfum. Hér í umræðunni hafa ítrekað verið nefnd fyrirtækin Vísir í Grindavík og Þorbjörn sem eru með verkefni á sviði Íslenska sjávarklasans, Codland, þar sem er verið að auka verðmæti hvers þorsks sem upp úr sjó kemur með alls konar nýsköpun og alls konar aðferðum sem fyrirtækin sjálf er að leggja sína peninga í. Á (Forseti hringir.) Reykjanesi til dæmis þar sem veiðar hafa dregist saman, þó ekki í Grindavík, (Forseti hringir.) er þetta mikilvægur nýr atvinnuvegur í samfélaginu.