141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt dálítið um innihald og umbúðir. Það var vísað í umbúðir þegar við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vorum að tala um Feneyjaskýrsluna sem hefur komið aðeins til tals. En ég held að það sé einmitt innihald þeirrar skýrslu sem getur skipt miklu máli fyrir umræðuna.

Ég sagði áðan að umræðan væri að verða síkvik vegna þess að það væru stöðugt að koma fram nýjar upplýsingar, nýjar ábendingar, nýtt innlegg sem þyrfti að taka afstöðu til. Mér finnst það sjálfsagt og eðlilegt og sýna virðingu Alþingis ef við hefjum ekki þessa umræðu fyrr en þýðing liggur fyrir.

Auðvitað var sjálfgefið að aflétta trúnaðinum af málinu strax og sömuleiðis að menn hefðu aðgang að þessari skýrslu á enskri tungu. En það er líka eðlilegt til að við getum haft gagn af plagginu í þessari umræðu á Alþingi Íslendinga að þetta grundvallarplagg sem unnið er að beiðni Alþingis Íslendinga liggi fyrir á íslenskri tungu.