141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var boðað til fundar í atvinnuveganefnd þingsins í hádeginu til að senda til umsagnar og fara yfir málsmeðferð á þingmáli um sjávarútvegsmál, fiskveiðistjórnarfrumvarpið. Ég fullyrði að ég hef ekki orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og voru stunduð og viðhöfð þar af hálfu meiri hluta nefndarinnar, meiri hluta flokkanna, formanns nefndarinnar og annarra þeirra þingmanna sem tóku þátt í því.

Í fyrsta lagi er gefinn mjög skammur umsagnarfrestur um þetta mál, einungis tíu dagar, og formaður tilkynnti okkur að málið yrði rætt jafnvel á kvöldfundum í nefndinni í næstu viku áður en umsagnarfresti lýkur. Ég lagði fram tillögu á þessum fundi um að kallaðir yrðu til sérfræðingar þeir sem atvinnuveganefnd hefur áður látið vinna fyrir sig úttekt á þessu máli. Þá voru þverbrotin fundarsköp og öll sæmileg hegðun af hálfu forustu formannsins í þessu máli gagnvart þingmönnum þar sem (Forseti hringir.) þessi tillaga mín fékkst ekki einu sinni tekin fyrir, hvað þá afgreidd formlega, heldur var (Forseti hringir.) málinu í fljótheitum hraðað út úr nefndinni með niðurstöðu þeirrar tillögu (Forseti hringir.) sem formaðurinn hafði lagt fram.

Virðulegi forseti. Forsætisnefnd verður að grípa inn í þetta mál, svona vinnubrögð (Forseti hringir.) innan nefnda þingsins ganga ekki. Það gengur ekki að komið sé fram með (Forseti hringir.) algjöru ofbeldi gagnvart minni hlutanum á þingi.