141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það sem er að gerast hér eru fastir liðir eins og venjulega í hv. atvinnuveganefnd sem áður var sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þegar fiskveiðistjórnarmál koma þar inn eftir 1. umr. hefst alltaf þetta leikrit. Hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Einar K. Guðfinnsson krefjast ótæpilegs fjölda umsagnaraðila, sérfræðingaskýrslna, fleiri funda, fleiri gestakoma og hafa beinlínis átt það til að þvælast fyrir því að mál komist til afgreiðslu og tefja það, eins og gerðist í morgun.

Vinnubrögð starfandi formanns nefndarinnar, hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, eru algjörlega til fyrirmyndar. Það er ekkert út á það að setja hvernig hún stýrði fundinum eða stýrir framgangi þessa máls í nefndinni. Hins vegar geri ég alvarlegar athugasemdir við framgöngu ákveðinna (Forseti hringir.) þingmanna á nefndarfundinum í morgun sem var til skammar (Forseti hringir.) en það sem er núna að gerast hefur gerst áður og heitir klína. Það er verið að klína því á stjórnarmeirihlutann (Forseti hringir.) í nefndinni að hann viðhafi vinnubrögð sem hann viðhefur ekki.