141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi stöðuna sem Feneyjanefndin var í þá er alveg ljóst að eftir að Feneyjanefndin fær gögnin í hendurnar þá eru kynntar breytingartillögur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þær breytingartillögur væntanlega, geri ég ráð fyrir að minnsta kosti, liggja til grundvallar þeirri lagasetningu sem endanlega verður samþykkt. Við skulum ganga út frá því, þannig er það að minnsta kosti jafnan í þinginu. Því er ljóst að Feneyjanefndin var að sumu leyti að vinna með úrelt gögn, enda hefur það komið hérna fram. Menn hafa verið að segja: Ja, sumu af því sem Feneyjanefndin er að tala um erum við þegar búin að breyta. Og það gerir málið náttúrlega enn snúnara.

Ég rúllaði í gegnum þetta skjal, hluta af því að minnsta kosti, og þar kemur til dæmis fram að þeir segjast ekki vera vissir um að þeir geti fyllilega lagt mat á það hvort þeir geti lagt til grundvallar sérstakt útskýringarskjal sem sent var til þeirra af sérfræðingi sem kallaður var til, og það nægi til skýringar á frumvarpinu. Þeim er því alveg ljóst að þeir eru í miklum vanda í þessum efnum.

Varðandi vinnuréttarmálið hefur komið fram ábending sem mér finnst vera mjög alvarleg. Ég vakti raunar athygli á henni í velferðarnefnd Alþingis þegar velferðarnefnd var að búa sig til þess að afgreiða málið frá sér til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Fram kom mjög alvarleg athugasemd um það að í 25. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins væri texti sem mætti skilja með þeim hætti að hann mundi setja núverandi fyrirkomulag á vinnumarkaði okkar upp í loft. Við erum með það fyrirkomulag að tiltölulega sterk verkalýðsfélög semja við samtök atvinnurekenda. Sums staðar úti í heimi eru ekki verkalýðsfélög heldur er þetta frekar einstaklingsbundið, vinnustaðasamningar o.s.frv. Það er bandaríska fyrirkomulagið sem við þekkjum.

Við erum með norræna kerfið og um það hefur verið prýðileg sátt á Íslandi. Þegar það gerist að þeir sem véla með þessi mál alla daga eru nú farnir að óttast að nú sé verið að breyta vinnumarkaðnum okkar úr norræna fyrirkomulaginu sem við höfum stuðst við (Forseti hringir.) í bandaríska fyrirkomulagið, þá segi ég: Við eigum að staldra við, við eigum að skoða þetta í þaula.