141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki áhugamál tugþúsunda Íslendinga að leiðrétta skuldir heimilanna heldur er það brýn nauðsyn og brýn þörf. Hv. þingmaður og hans flokkur hafa hins vegar ekki viljað hlusta á þær tugþúsundir Íslendinga sem þurfa svo brýnt á því að halda. Málin sem eru rædd við okkur þegar við förum út fyrir þennan sal eru málefni heimilanna, skuldamálin og efnahagsmálin. Það er ekki þetta mál sem hér um ræðir, svo ég geti upplýst hv. þingmann um það. Það kann að vera að það sé í einhverjum hópi sem hv. þingmaður talar við.

Ég er nokkuð ringlaður eftir ræðu hv. þingmanns. Í einu orðinu talaði þingmaðurinn um mikilvægi þess að tala saman og ná einhvers konar sátt, að fara yfir ákveðin atriði og svo framvegis, en í hinu orðinu skaut hann til vinstri og nánast útilokaði að tala við Sjálfstæðisflokkinn og spurði svo framsóknarmenn hvort þeir væru vinnumenn sjálfstæðismanna hér í þinginu. Mig langar að upplýsa hv. þingmann um það að framsóknarmenn eru hvorki vinnumenn sjálfstæðismanna né annarra hér í þinginu. Allra síst kannski Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, ef þeir væru vinnumenn einhverra.

Ég vil upplýsa þingmanninn um að okkur líkar í rauninni ágætlega við fólk úr báðum flokkum. Við viljum þar af leiðandi eiga þetta samtal og höfum boðið fram hvernig leysa mætti málið, en ekkert hefur komið út úr þeim viðræðum.

Mér fannst því holur hljómur í ræðu hv. þingmanns þegar rætt var um hvernig mætti klára þetta mál. Mér fannst eins og þetta væri einhver auglýsing.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því áliti Feneyjanefndar að ef ekki næst að komast að einhvers konar lendingu í málinu sé best að íhuga hvernig við breytum stjórnarskránni. Þar er að það verkefni verði tekið sérstaklega fyrir, væntanlega með það í huga að auðvelda það því það er eitt af því sem nefndin leggur til í næstsíðasta punkti sínum, ef ég man rétt.

Síðan vil ég nefna að lokum við hv. þingmann, þegar þingmaðurinn byrjar að tala um málþóf, að ég hef heyrt þennan tón áður. Ég hef heyrt (Forseti hringir.) slíkar ásakanir um málþóf nokkuð oft áður. Ef þær ræður sem ég flutti hér í Icesave-málinu eru kallaðar málþóf, þá er ég afar stoltur af þeim. (Forseti hringir.) Ég vona að hv. þingmaður geti líka verið stoltur af sínum ræðum í því máli.