141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér upp og gefa mér innsýn í hvaða umræða liggur að baki nefndaráliti meiri hlutans, þeirri hugsun sem þar kemur fram. En ég er ein af þeim, eins og hv. þingmaður heyrði á ræðu minni, sem eru algjörlega miður sín yfir því að menn ætli að hafa tvær aðferðir við að breyta stjórnarskránni vegna þess að það er svo ruglingslegt. Mér finnst það rosaleg yfirlýsing. Ég heyri að þetta er ekki hjartans mál hjá hv. þingmanni, en þetta er mitt hjartans mál. Mér finnst þetta mjög mikil yfirlýsing.

Er ekki t.d. mikilvægt að fjalla um með hvaða hætti þjóðréttarsamningar eru gerðir við framsal ríkisvalds, sem er í 111. gr. í VIII. kafla? Á þá bara að hafa einfaldari breytingaraðferðir? Mér finnst það mjög mikilvægt að íhaldssemi, ef menn vilja kalla það svo, verði viðhöfð við breytingar á stjórnarskránni á grundvelli þeirra grunnsjónarmiða að skapa víðtæka sátt af því að þetta á ekki bara við um mannréttindakaflinn heldur um alla stjórnarskrána, þann klett sem hún á að vera. Það á ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskránni.