141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:55]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er þeirrar skoðunar að það ferli við meðferð lagafrumvarpa á Alþingi sé með þeim hætti að við eigum að taka mark á því. Lagafrumvörp fara í gegnum þrjár umræður. Og í málum eins og þessu þar sem mikil þörf er á því að vinna málin vandlega og taka mark á umsögnum úr öllum áttum eiga menn að nýta þann tíma sem fyrir liggur til hins ýtrasta. Það liggur fyrir að þessi umræða hófst áður en Feneyjanefndin skilaði af sér. Núna hefur hún skilað af sér þeim tillögum og þær liggja fyrir, reyndar á enskri tungu, en ég tel að þingmenn séu bærilega staddir með það að nýta sér þau gögn í umræðunni og geti gert það og eru að gera það. Ég hef engar athugasemdir við það ferli sem lagt hefur verið upp með. Það hefur allan tímann legið ljóst fyrir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundi taka niðurstöðu Feneyjanefndarinnar og álit hennar til frekari meðferðar í þinginu og það stendur til.