141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála því að menn eigi að hafa jafnan rétt, það eigi ekki að vera neinn mismunur hvort sem menn búa þar eða hér. Það sem ég er að benda á eru þær breytingar sem yrðu á núverandi stöðu og því skipulagi og stjórnskipulagi sem við erum með. Við erum þar stödd í núinu. Við erum með kjördæmaskiptinguna eins og hún er. Þess vegna benti ég á það að ef við förum þessa leið þá held ég — það er mín skoðun og ég sagði það í ræðu minni — að við þyrftum að taka efnislega rökræðu um að breyta landinu í eitt kjördæmi. Ég reyndi að nálgast viðfangsefnið þannig.

Ef við gerðum það, tökum bara Norðvesturkjördæmi af því að ég þekki til þar og er þaðan, sæi ég fyrir mér að það yrði mikið umhugsunarefni fyrir íbúa í Norðvesturkjördæmi að hafa kannski bara fjóra þingmenn eða hafa landið allt sem eitt kjördæmi. Ég held að það sé umræða sem við þurfum að taka samhliða þessari breytingu hér.