141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum auðvitað alltaf búið við ákveðið misvægi atkvæða. Í núgildandi stjórnarskrá er heimilt að það sé í raun 1:2 og það var gott betur í síðustu kosningum 2009 og þess vegna verður nú leiðrétt á milli Norðvesturkjördæmis og Suðvesturkjördæmis.

Við höfum rætt um álit Feneyjanefndarinnar. Mig langar til að vekja athygli á því að í prinsippinu segir Feneyjanefndin að misvægi atkvæða megi ekki vera yfir 10% og megi aldrei fara yfir 15% nema við mjög sérstakar aðstæður. Nú er sem sagt leyfilegt að það sé 100%, 1:2 hér, en þegar Feneyjanefndin fjallar nú um þetta prinsipp með jafnt vægi atkvæða í 69. mgr. í áliti sínu þá segir þar skýrt um þetta að nefndin fagni þessari niðurstöðu. Ég er ekki að leggja mat á það frekar en annað í álitinu. Ég vil einungis vekja athygli á því að það er ekki bara að Feneyjanefndin sé að mæla gegn þeim tillögum sem hér liggja fyrir, hún er líka að taka undir þær og fagna þeim.