141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:33]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega margt sérkennilegt í þessari uppákomu svo vægt sé til orða tekið. Ég er sannfærður, eftir ágæta yfirferð og umræður í þingnefndum, um að ráðuneyti og ráðherrar, bæði innanríkis- og utanríkismála hafa komið að þessu máli á eðlilegan, stjórnsýslulegan hátt og afgreitt það á málefnalegum forsendum.

Umræðan er lögð upp af hálfu málshefjanda á afar sérstökum forsendum og ég get ekki séð í hvaða tilgangi né á hvaða rökum sú framsetning og ályktanir sem hv. þingmaður hefur lagt fram eru byggðar. Aftur á móti vakna ýmsar spurningar sem lúta að framgangi þeirra erlendu lögreglu- og rannsóknaraðila sem áttu í hlut og einnig viðbrögðum og síðari tíma yfirlýsingum yfirmanna lögregluyfirvalda hérlendis. Fyrir það fyrsta vekur sérstaka athygli að það líða rétt tveir mánuðir frá því að fyrst er vakin athygli á því þann 20. júní af hálfu bandarískra yfirvalda og alríkislögreglunnar að hætta sé á yfirvofandi tölvuárás á íslenska stjórnkerfið, þar til rannsóknaraðilar frá Bandaríkjunum koma hingað í stórum stíl í lok ágúst. Þá liggur fyrir yfirlýsing um að á þeim tímapunkti hafi verið búið að afstýra allri hættu á árás á tölvukerfið þannig að heimsóknin hingað til lands var í allt öðrum tilgangi en lagt var upp með, eins og síðar kom í ljós.

Þegar innanríkisráðherra gaf út yfirlýsingu um að framlögð réttarbeiðni nægði ekki til þeirra rannsókna og yfirheyrslna sem tengdust Wikileaks og var greinilega megintilgangur heimsóknarinnar hingað, og að leggja þyrfti fram nýja réttarbeiðni þar að lútandi bar svo við að engin slík ósk kom fram. (Gripið fram í: Af hverju?) Hvers vegna var sú eðlilega stjórnsýsla ráðuneytisins ekki virt og farið að úrskurði þess? Hvers vegna létu íslensk rannsóknaryfirvöld ekki í ljós álit sitt á afgreiðslu ráðuneytisins á sínum tíma en halda fram öðru áliti núna þegar málið kemur upp á yfirborðið nærri tveimur árum síðar? Stendur það hugsanlega í einhverju samhengi við þá staðreynd að FBI-menn fóru sínu fram hér í fjóra daga þrátt fyrir úrskurð innanríkisráðherra með vitund íslenskra lögregluyfirvalda?

Þá vekur sameiginleg yfirlýsing ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra upp ýmsar spurningar, (Forseti hringir.) ekki síst sá þáttur sem snýr að meintri aðkomu Wikileaks og Íslendinga að því máli. (Forseti hringir.) Við þessum atriðum þarf skýrari svör. (BirgJ: Heyr, heyr.)